Yfirvöld Indlands hafa nú staðfest að minnst 500 þúsund manns hafi smitast af Covid-19. Síðasta sólarhringinn greindust 17 þúsund nýsmitaðir og fer smituðum hratt fjölgandi í borgum landsins þar sem þéttbýli og návígi er mikið. Fastlega er búist við því að smituðum muni fjölga hratt áfram og sérfræðingar landsins telja að smitaðir verði minnst 770 til 925 þúsund fyrir 15. júlí.
Indland er í fjórða sæti á lista ríkja þar sem flestir smitaðir hafa greinst. Flestir eru þeir í Bandaríkjunum, en Brasilía kemur þar á eftir og svo Rússland, samkvæmt Johns Hopkins háskólanum í Bandaríkjunum, sem heldur utan um opinberar tölur.
Minnst 15.685 hafa dáið á Indlandi.
Eins og áður segir greindust 17 þúsund nýsmitaðir á síðastliðnum sólarhring. Fyrr í vikunni greindust 16 þúsund og var það met.
Til að mæta þessari miklu fjölgun smitaðra hafa yfirvöld kallað út her Indlands sem á að koma upp fjölmörgum sjúkrarýmum á skömmum tíma. Meðal annars verður notast við lestir, eins og til dæmis í Delí, höfuðborg landsins þar sem tuttugu milljónir búa. Þar eru þó eingöngu 13.200 sjúkrarými og er þörf á minnst 20 þúsund til viðbótar á næstu vikum.