Yfir 1.500 jarðskjálftar hafa mælst undanfarna tvo sólarhringa frá því að jarðskjálftahrina hófst um tuttugu kílómetra norðaustur af Siglufirði. Tveir stærstu skjálftarnir urðu klukkan 15:05 og 19:26 og mældust 5,4 og 5,6 að stærð.
Íbúar á Norðurlandi fundu vel fyrir skjálftanum en engar tilkynningar um tjón eða slys á fólki bárust í kjölfar hans. Jarðskjálftinn fannst alla leið vestur í Dalasýslu á Ísafirði og jafnvel á höfuðborgarsvæðinu.
Ríkislögreglustjóri lýsti yfir óvissustigi almannavarna vegna jarðskjálftahrinunnar í samráði við lögreglustjórann á Norðurlandi eystra. Eftir skjálftann varð mikið grjóthrun úr fjallshlíðum á Norðurlandi og varaði lögreglan ferðafólk sérstaklega við hættu sem því gæti fylgt.
Aukið eftirlit verður með svæðinu ef ske kynni að ástandið færi að ógna heilsu eða öryggi fólks á svæðinu. Fólk er jafnframt hvatt til þess að gera viðeigandi ráðstafanir vegna jarðskjálfta sé það á þekktum jarðskjálftasvæðum.
Í athugasemdum jarðvísindamanns hjá Veðurstofu Íslands kemur fram að enn mælist mikið af minni skjálftum á svæðinu. Líkur eru á að fleiri stórir skjálftar verði en í samtali við fréttastofu í gærkvöldi sagði sérfræðingur Veðurstofunnar um skjálftavirkni að svona hrinur ættu það til að standa yfir í dálítið langan tíma.