Tilfellum kórónuveirunnar fjölgar enn víða um heim og ekki síst í Brasilíu, greind tilfelli veirunnar í landinu eru nú orðin fleiri en ein milljón talsins. Það er einungis í Bandaríkjunum sem fleiri tilfelli hafa greinst. BBC greinir frá.
Heilbrigðisráðuneytið brasilíska hefur staðfest að 1.032.913 tilfelli hafi greinst í landinu en þó er talið að fleiri séu þó smitaðir. Ekki hafi verið skimað nægilega til þess að hægt sé að treysta opinberum tölum.
Þá telja sérfræðingar að faraldurinn í Brasilíu eigi enn eftir að ná hæstu hæðum.
Forseti Brasilíu, Jair Bolsonaro, hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir viðbrögð sín við veirunni sem hefur komið verst niður á fátækasta fólki landsins. Bolsonaro hefur talað alvarleika veirunnar niður og hefur rifist við ýmsa leiðtoga héraða landsins um sóttvarnaraðgerðir.
Heilbrigðisráðuneytið hefur staðfest að tæplega 49.000 manns hafi látið lífið í landinu af völdum veirunnar en þó er talið að raunverulega sé fjöldinn mun hærri.