Evariste Ndayishimiye mun sverja embættiseið og taka við sem nýr forseti Afríkuríkisins Búrúndí í dag eftir andlát forsetans Pierre Nkurunziza í síðustu viku.
Mikil spenna hefur verið í Búrúndí síðustu vikurnar, en Ndayishimiye, sem áður var uppreisnarleiðtogi í landinu, bar sigur úr býtum í forsetakosningunum í maí og hefði í raun átt að taka við embættinu í ágúst.
Ndayishimiye, sem er 52 ára, hlaut 68,7 prósent atkvæða í kosningunum, en andstæðingar hans segja brögð hafa verið í tafli við framkvæmd kosninganna.
Hinn 55 ára Nkurunziza lést óvænt í síðustu viku eftir að hafa fengið hjartaáfall, en í frétt BBC segir að óstaðfestar heimildir hermi að hann hafi verið með Covid-19. Nkurunziza hafði stýrt landinu frá árinu 2005.
Stjórnarskrá Búrúndí kveður á um að ef forseti deyr í embætti skuli forseti þingsins taka við embættinu. Stjórnlagadómstóll landsins hefur hins vegar úrskurðað að Ndayishimiye geti tekið fyrr við embættinu.