Brasilíski varnarmaðurinn David Luiz átti vægast sagt hörmulega innkomu er Arsenal tapaði 3-0 fyrir Manchester City í ensku úrvalsdeildinni í gær. Var þetta fyrsti leikur liðanna eftir að allt var sett á ís vegna kórónufaraldursins.
David Luiz, sem virðist á förum frá Arsenal í sumar eftir aðeins eitt ár hjá félaginu, hóf leikinn á bekkinn en kom inn á fyrir Pablo Mari eftir aðeins 24. mínútna leik. Var það önnur skipting Arsenal í leiknum vegna meiðsla. Staðan var markalaus þegar Luiz kom inn á en það átti eftir að breytast áður en fyrri hálfleikur var úti.
Raheem Sterling kom heimamönnum í Manchester City yfir undir lok fyrri hálfleiks eftir hörmuleg mistök Luiz. Eitthvað hafa mistökin setið í Brasilíumanninum en hann braut á Riyad Mahrez innan vítateigs í upphafi síðari hálfleiks.
Vítaspyrna dæmd og Luiz fékk reisupassann.
Er þetta fjórða vítaspyrnan sem Luiz fær dæmda á sig í búningi Arsenal. Það sem er ótrúlegt er að frá því hann snéri aftur í raðir Chelsea frá franska liðin Paris Saint-Germain – sumarið 2016 – þá hafði hann ekki fengið dæmda á sig vítaspyrnu fyrr en hann færði sig um set til Arsenal fyrir þetta tímabil.
David Luiz in the Premier League since returning to Chelsea:
— Squawka Football (@Squawka) June 17, 2020
2016/17: 0 penalties conceded
2017/18: 0 penalties conceded
2018/19: 0 penalties conceded
*joins Arsenal*
2019/20: 4 penalties conceded pic.twitter.com/zSRWuQyUbF
Alls lék Luiz 79 leiki fyrir Chelsea án þess að gefa mótherjunum víti. Í þeim 26 leikjum sem hann hefur leikið fyrir Arsenal hefur Luiz gefið fjögur víti.
Ekki nóg með það heldur er þetta annað rauða spjaldið sem Luiz fær í treyju Arsenal. Tæknilega séð þýðir þetta að hann hefur fengið rautt spjald á 13 leikja fresti frá því hann gekk í raðir félagsins. Að sama skapi liðu 160 leikir á milli rauðra spjalda hjá Luiz þegar hann var í Chelsea.
David Luiz with a red card once every 160 PL games with Chelsea, once every 13 games with Arsenal. Gave a penalty away once every 53 games for Chelsea, once every 6.5 games for Arsenal.
— Duncan Alexander (@oilysailor) June 17, 2020
Staðan var þar með orðin 2-0 City í vil og Arsenal manni færri. Fór það svo að leiknum lauk með 3-0 sigri City sem heldur þar með öðru sæti úrvalsdeildarinnar, aðeins 22 stigum á eftir toppliði Liverpool. Arsenal er í 9. sæti, tuttugu stigum á eftir City.
Mögulega var þetta síðasti leikur Luiz fyrir Arsenal.