Um tvo þriðju af þeim 1,151 nýju kórónuveirusmitum sem greint var frá í dag í Póllandi má rekja til einnar námu í Suður-Póllandi.
BBC greinir frá og hefur eftir upplýsingum frá pólska heilbrigðisráðuneytinu. Þar kemur fram að hópsmit á meðal námuverkamanna og fjölskyldna þeirra í Zofiowka-námunni skýri megnið af nýju smitunum, en aldrei hafa fleiri greinst á einum degi í Póllandi frá því að faraldurinn hófst.
Pólland hefur náð ágætum árangri í baráttunni gegn veirunni. Þar gripu yfirvöld snemmna inn í en um 26 þúsund manns hafa smitast og 1.157 látist af völdum veirunnar. Veiran virðist vera lífseigust í Slesíu-héraði Póllands þar sem um fjögur þúsund manns hafa greinst með veiruna. Af þeim smitum sem greint var frá í dag koma um 57 prósent þaðan.
Pólverjar hafa hafið slakanir á þeim takmörkunum sem settar voru á vegna faraldursins. Þannig voru almenningsgarðar opnaðir á ný í apríl og ákveðinn hópur skólakrakka sneri aftur í skóla í lok síðasta mánaðar.