Maðurinn sem nú er grunaður um að tengjast hvarfi Madeleine McCann, breskrar stúlku sem hvarf úr fjölskyldufríi í Portúgal í maí 2007, er sagður hafa játað aðild sína að hvarfi hennar þar sem hann sat og ræddi við mann á bar í Þýskalandi. Kveikjan að játningunni var frétt um mál Madeleine sem sýnd var í sjónvarpi á barnum.
Maðurinn, Christian B., er 43 ára Þjóðverji. Hann afplánar nú dóm í þýsku fangelsi fyrir nauðgun í Algarve í Portúgal, bænum þar sem fjölskylda Madeleine dvaldi þegar hún hvarf. Þá hefur hann hlotið dóma fyrir kynferðisbrot gegn börnum.
Hann er nú orðinn miðpunktur rannsóknar Scotland Yard, rannsóknarlögreglunnar í Lundúnum, á hvarfi Madeleine. Þýska lögreglan, sem einnig fer með rannsókn málsins, gengur út frá því að Madeleine sé látin, líkt og tilkynnt var á blaðamannafundi í dag.
Breskir fjölmiðlar hafa margir sankað að sér upplýsingum um manninn síðan lögregla svipti hulunni af mögulegri aðild hans að málinu í gær. Lögreglan hefur raunar sjálf verið nokkur rausnarleg á slíkar upplýsingar, að mati fréttaritara Sky og BBC.
Sýndi myndband af nauðgun
Fyrrnefnda fréttastofan tekur saman allt sem vitað er um þennan þýska fanga í umfjöllun sem birt var nú í kvöld. Þar er lögregla sögð hafa komist á sporið eftir að maðurinn játaði einhvers konar aðild að hvarfi Madeleine í samtali við annan mann þar sem þeir sátu á bar í Þýskalandi. Hinn grunaði hafi verið að fylgjast með frétt af máli Madeleine í sjónvarpi á barnum og í kjölfarið sagt „eitthvað sem gaf til kynna að hann bæri ábyrgð á hvarfi hennar“, líkt og segir í frétt Sky.
Maðurinn er síðar sagður hafa sýnt hinum manninum myndband sem sýndi þann fyrrnefnda nauðga eldri konu, bandarískum ferðamanni, í Portúgal árið 2005. Lögreglu var tilkynnt um þessi samskipti um það leyti sem tíu ár voru liðin frá hvarfi Madeleine. Maðurinn var að endingu dæmdur fyrir nauðgunina í desember síðastliðnum og afplánar nú sjö ára dóm. Í frétt Sky segir að hár úr manninum sem fannst á vettvangi hafi haft úrslitaáhrif á rannsóknina.
Maðurinn ferðaðist um Portúgal í húsbíl um nokkurra ára skeið og er talinn hafa dvalið í grennd við fjölskyldu Madeleine um það leyti sem hún hvarf. Lögregla hefur birt myndir af tveimur bílum í eigu mannsins, áðurnefndum húsbíl og bíl af gerðinni Jaguar, en hvorugur þeirra hefur varpað nokkru ljósi á hvarf Madeleine.