Þúsundir komu saman í höfuðborg Ekvador í nótt til að mótmæla aðgerðum stjórnvalda vegna kórónuveirufaraldursins.
Samkomubann er í gildi í höfuðborginni Quito en fólkið lét það ekki aftra sér en það er afar ósátt við þá ákvörðun forseta landsins að loka ríkisfyrirtækjum og lækka laun í opinbera geiranum.
Ekvador hefur farið illa út úr faraldrinum en þar hafa um 37 þúsund tilfelli verið staðfest og eru rúmlega tvö þúsund dauðsföll rakin til sjúkdómsins Covid-19.
Lenín Moreno, forseti landsins, segir að um 150 þúsund störf hafi tapast í ástandinu sem virðist lítið vera að skána en í síðustu viku sagði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin að Suður-Ameríka væri nú miðpunktur faraldursins.
Rúmlega 23 þúsund hafa látist í Brasilíu og í Perú eru staðfest tilfelli fleiri en 120 þúsund.