Þrír ungir leikmenn skoruðu sín fyrstu stig fyrir Njarðvík í Domino's deild karla þegar liðið vann Fjölni örugglega, 117-83, í gær.
Þetta voru þeir Guðjón Karl Halldórsson, Gunnar Már Sigmundsson og Róbert Sean Birmingham. Frá þessu er greint á heimasíðu Njarðvíkur.
Sá síðastnefndi á ekki langt að sækja körfuboltahæfileikana en hann er sonur Brentons Birmingham sem lék lengi með Njarðvík.
Róbert spilaði í rúmar tíu mínútur í leiknum í gær, skoraði tvö stig, tók tvö fráköst og stal boltanum einu sinni.
Róbert er 15 ára, fæddur í september 2004, og hefur leikið með yngri landsliðum Íslands.
Brenton er einn besti bandaríski körfuboltamaður sem hefur leikið hér á landi. Hann varð Íslandsmeistari með Njarðvík 2001, 2002 og 2006 og bikarmeistari 1999, 2002 og 2005. Hann varð einnig bikarmeistari með Grindavík 2000.
Brenton fékk seinna íslenskt ríkisfang og lék 19 landsleiki fyrir Íslands hönd. Hann er enn búsettur á Íslandi, starfar sem flugumferðarstjóri og situr í stjórn körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur.