Landgræðslustjóri segir að enn sé verið að beita sauðfé á illa farið land og tekur undir gagnrýni Ólafs Arnalds jarðvegsfræðings á vottun landnýtingar. Hann segir að stór skref hafi samt verið stigin í friðun svæða og vonast til að enn stærri skref verði stigin með nýrri reglugerð í haust. Þetta kom fram í fréttum Stöðvar 2.
Hluti sauðfjárbænda fær styrki til að stunda ofbeit á kostnað skattgreiðenda, að mati Ólafs Arnalds, prófessors í jarðvegsfræði, sem segir gæðastýringarkerfi, sem átti að tryggja góða landnýtingu, vera blekkingu og grænþvott.
Sjá hér: Segir sauðfjárbændur styrkta með blekkingu og grænþvotti
Árni Bragason landgræðslustjóri tekur undir þá fullyrðingu Ólafs að landbúnaðarráðuneytið hafi skikkað Landgræðsluna til að votta land samkvæmt skilgreiningum sem Landgræðslan viðurkennir ekki.
„Landgræðslan mótmælti þessum reglum og skrifaði ekki upp á þær, - taldi þær ekki ganga nógu langt og þær gæfu ekki rétta mynd af því hver raunveruleg staða væri.“

Landgræðslustjóri segir að enn sé verið að beita fé á illa farið land.
„Já, það er bara því miður þannig. Við erum það. Og það eru illa farin svæði á gosbeltinu sem við þurfum að taka á.
Og ég er ekkert að segja neitt nýtt þar. En tek fram, - það sem Ólafur benti líka á, - þetta er ekki nema hluti af framleiðslunni.“ Eða um 15 prósent.
Árni telur gæðastýringuna þó hafa gagnast vel.
„Gæðastýringin hefur skilað því að það er búið að friða mjög víða um land stór svæði sem voru illa farin og eru illa farin. Þannig að það er búið að stíga mörg mjög góð skref,“ segir Árni.
Hann segir að framundan séu fleiri skref. Nýtt mat á ástandi lands verði birt í næsta mánuði í samstarfsverkefninu GróLind með bændum. Þá sé vonast eftir nýrri reglugerð frá umhverfisráðherra í haust.
„Við vonumst til þess að það verði stigin alvöru skref í þessu núna næstkomandi vetur og að við færumst í rétta átt með þessi mál á næstu árum,“ segir Árni Bragason landgræðslustjóri.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: