Sóttvarnalæknir segir landsmönnum að búa sig undir áframhaldandi takmarkanir að minnsta kosti fram á haust. Andlát vegna kórónuveirunnar varð á Landspítalanum síðasta sólarhring. Átta hafa látist af völdum veirunnar.
Sóttvarnalæknir sagði á daglegum upplýsingafundi í dag að þær aðgerðir og takmarkanir sem settar hafa verið á hafi gefist vel í faraldrinum. Fjórtán greindust með smit síðasta sólarhringinn og er heildarfjöldi þeirra sem hafa sýkst tæplega sautjánhundruð. Níutíu batnaði. Þá hefur jafn mörgum batnað og eru nú í einangrun.
Sóttvarnalæknir segir að þrátt fyrir að faraldurinn sé á hægri niðurleið og lítið samfélagslegt smit í gangi þurfi landsmenn að undirbúa sig undir áframhaldandi takmarkanir.

Mótefnamælingar síðar í mánuðinum
„Við þurfum að vera við því búin að litlar hópsýkingar geti brotist út ef við gætum ekki að okkur sem þýðir að við þurfum að halda áfram árvekni eins og við höfum gert fram að þessu,“ sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir.
Þórólfur segir að ráðist verði í mótefnamælingar síðar í mánuðinum til þess að kanna hverjir séu út settir fyrir smiti. Eins og fram hefur komið verður aðgerðum í samfélaginu aflétt í skrefum frá 4. maí.
„Hvert skref mun örugglega þurfa taka svona þrjár til fjórar vikur og það mun ábyggilega ná yfir einhverja vikur og mánuði og örugglega yfir sumartímann,“ segir Þórólfur.
Takmarkanir á stórum samkomum í allt sumar
Ef í ljós komi að aflétting aðgerða verði til þess að smitum fjölgi megi gera ráð fyrir að þær verði hertar aftur.
„Ég bið landsmenn um að vera undir það búna að takmarkanir verði settar á stórar samkomur í sumar. Hvernig það verður gert verður auglýst síðar,“ segir Þórólfur.
Út árið þurfi almenningur að viðhalda almennu hreinlæti, virða tveggja metra fjarlægðarmörk, vernda viðkvæma hópa og forðast mannmarga staði.
Þórólfur segir einnig að takmarkanir verði settar á komu erlendra ferðamanna hingað til lands sem og á ferðir Íslendinga til útlanda.