Jenný Guðrún Jónsdóttir hefur verið ráðin nýr framkvæmdastjóri Viðreisnar. Hún tekur við starfinu af Birnu Þórarinsdóttur sem nýverið var ráðin nýr framkvæmdastjóri UNICEF á Íslandi.
Í tilkynningu kemur fram að Jenný sé menntaður kennari, hafi próf í verðbréfamiðlun og sé í stjórnunarnámi. Hún starfaði í tæpan áratug í fjármálageiranum, síðast sem rekstrarstjóri.
„Jenný tók þátt í stofnun Viðreisnar og hefur gegnt ýmsum trúnaðarstörfum fyrir flokkinn. Hún sat í fyrstu stjórn Viðreisnar, hefur leitt málefnastarf og setið í uppstillinganefnd. Þá starfaði hún sem framkvæmdastjóri Viðreisnar í afleysingum í tæpt ár 2018-2019,“ segir í tilkynningunni. Alls bárust 44 um sóknir um starfið en Hagvangur sá um ráðningarferlið.