Fótbolti

Giggs komst næst því að fara frá Man. United sumarið 2004

Anton Ingi Leifsson skrifar
Ryan Giggs fagnar undramarki sínu frá 1999.
Ryan Giggs fagnar undramarki sínu frá 1999. Getty/ Matthew Peters

Ryan Giggs, sem lék tæplega 700 leiki fyrir Manchester United, segir að hann hafi verið næst því að yfirgefa félagið tímabilið 2003/2004. Hann ákvað þó að taka slaginn áfram og safnaði hverjum titlinum á fætur öðrum.

Giggs lék allan sinn feril með United. Hann skrifaði undir sinn fyrsta atvinnumannasamning árið 1990 og endaði á því að leika 672 leiki fyir félagið. Hann skoraði 114 mörk fyrir Rauðu djöflanna.

Wales-verjinn vann ensku deildina þrettán sinnum, enska bikarinn fjórum sinnum og Meistaradeildina í tvígang áður en hann lagði skóna á hilluna árið 2014, þá fertugur. Hann segir þó að tíu árum áður hafi hann mögulega verið á förum.

„Tímabilið 2003/2004 þá byrjaði ég ekki tímabilið vel. Þetta var sumarið sem Beckham fór og það var þegar ég komst næst því að fara frá félaginu,“ sagði Giggs í samtali við beIN Sports í þættinum Champions Club.

„Ég var ekki í góðu formi og þarna var ég að breytast úr fljúgandi kantmanni í það að vera meira fyrir miðju vallarins. Ég hafði tapað hraðanum en ég endaði svo tímabilið mjög vel. Ef ég hefði ekki endað tímabilið vel þá veit ég ekki hvað hefði gerst.“

Giggs sér væntanlega ekki eftir því að hafa verið áfram hjá félaginu því hann vann deildina fimm sinnum, enska bikarinn og Meistaradeildina á næstu árum. Magnaður ferill.

„Fyrir utan þennan tíma þá var ekki einhver annar tími þar sem stjórinn sagði að ég væri ekki að standa sig. Ég var inn og út úr liðinu undir lok ferilsins en ég var vanur því. Það var allt í lagi. Ég var þarna 35 ára þangað til ég var fertugur og ég þurfti að venjast því að vera inn og út úr liðinu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×