Seðlabanki Bandaríkjanna tilkynnti um hálfs prósentustigs neyðarstýrivaxtalækkun til þess að bregðast við áhrifum kórónuveirufaraldrinum í dag. Lækkunin er sú mesta frá því í fjármálakreppunni sem gekk yfir heiminn árið 2008.
Með stýrivaxtalækkuninni fetar bandaríski seðlabankinn í fótspor annarra seðlabanka um allan heim sem hafa reynt að koma ró á fjármálamarkaði og hagkerfi í skugga efnahagslegra áhrifa kórónuveirunnar. Tugir þúsunda manna hafa smitast af veirunni og um 3.000 manns látist.
Etir lækkunin eru bandarískir stýrivextir rétt undir 1,25% en þeir voru um 1,75% fyrir. Washington Post segir að hlutabréfaverð hafi þokast upp á við í fyrstu eftir að fréttir af lækkuninni bárust en Dow Jones-vísitalan lækkaði hins vegar fljótt aftur.
Donald Trump Bandaríkjaforseti, sem hefur ítrekað krafist þess að seðlabankinn lækkaði vexti, þrýsti á bankastjórnendurnar á Twitter fyrr í dag.
Síðast greið Seðlabanki Bandaríkjanna til neyðarlækkunar stýrivaxta eftir að fjárfestingabankinn Lehman Brothers varð gjaldþrota og fjármálakerfi heimsins stóð á brauðfótum árið 2008.