Það er áframhaldandi frost og ofankoma í veðurkortum Veðurstofunnar. Kalt verður í veðri fram yfir helgi og ættu landsmenn að búa sig undir tveggja stafa frost næstu daga. Meðan áfram er jafn kalt í veðri aukast líkurnar á því jólin verði hvít, að sögn veðurfræðings.
Landsmenn mega búast við norðlægri átt, 5 til 13 m/s, en ætla má að það muni hvessa á suðausturhorninu síðdegis á morgun eða annað kvöld.
Veðurstofan áætlar að næstu vikuna verði lengst af éljagangur fyrir norðan og austan. Þó er ekki útilokað að ofankoman muni falla í formi snjókomu, einum á sunnudag. Það verður þó yfirleitt þurrt sunnantil á landinu en líkur á stöku éljum af og til.
Þá má búast við töluverðu frosti næstu daga, sem þó verður mildast við ströndina. Þannig má áætla að frostið verið á bilinu 4 til 15 stig í dag og kaldast inn til landsins. Veðurstofan segist þó gera ráð fyrir að það muni hlýna í næstu viku og gæti hitinn jafnvel farið upp undir frostmark við ströndina. „Á meðan ekki þiðnar aukast líkurnar á hvítum jólum,“ bætir veðurfræðingur við.
Hér neðst í fréttinni má sjá hvernig veðrið þróast næstu daga.
Veðurhorfur á landinu næstu daga
Á laugardag:
Norðlæg eða breytileg átt 5-13 m/s og stöku él með N-ströndinni, annars víða bjart. Frost 3 til 15 stig, mildast við ströndina.
Á sunnudag og mánudag:
Norðaustan 8-15 m/s með ofankomu N- og A-til, en þurrt S-lands. Minnkandi frost.
Á þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir áframhaldandi norðaustlæga átt með éljum við N- og A-ströndina, en annars yfirleitt þurrt. Frost 1 til 12 stig, kaldast inn til landsins