Barcelona lenti í vandræðum í spænsku úrvalsdeildinni í dag þegar liðið heimsótti Real Sociedad en þegar kom að leiknum í dag hafði Barcelona unnið fjóra deildarleiki í röð.
Heimamenn fengu vítaspyrnu snemma leiks sem Mikel Oyarzabal færði sér í nyt en Antoine Griezmann jafnaði fyrir Börsunga, skömmu fyrir leikhlé, á sínum gamla heimavelli.
Luis Suarez kom gestunum yfir snemma í síðari hálfleik en eftir klukkutíma leik jafnaði sænski framherjinn Alexander Isak metin fyrir Sociedad og þar við sat. Lokatölur 2-2.
Úrslitin þýða að Real Madrid getur tyllt sér á topp deildarinnar takist liðinu að leggja Valencia að velli á morgun.
