Þorsteinn Már Baldvinsson hefur sagt sig úr stjórn norska útgerðarfyrirtækisins Nergård. Samherji eignaðist 40% hlut í fyrirtækinu árið 2017.
Greint er frá málinu á vef norska miðilsins E24. Haft er eftir Tommy Torvanger forstjóra Nergård að Þorsteinn hafi hætt í stjórninni. Frekari breytingar á stjórninni hafi þó ekki orðið. Þannig muni Baldvin Þorsteinsson, sonur Þorsteins, sitja áfram í stjórninni sem nú er skipuð fjórum stjórnarmönnum í stað fimm.
Þegar Torvanger var inntur eftir viðbrögðum við Samherjamálinu í síðustu viku sagði hann í samtali við E24 að hann þekkti Þorstein af góðu einu. Þorsteinn hafi verið mikilvægur fyrirtækinu en fylgst verði náið með framgangi mála.
Þá mun eignarhlutur Samherja í Nergård eftir sem áður verða um 40%, að sögn Torvangers. Þorsteinn hefur setið í stjórn Nergård síðan árið 2014, sama ár og Samherji keypti fyrst hlut í fyrirtækinu.
Þorsteinn steig til hliðar sem forstjóri Samherja eftir að fréttaskýringaþátturinn Kveikur greindi frá því að vísbendingar væru um að fyrirtækið hefði greitt embættismönnum í Namibíu milljónir í mútur í skiptum fyrir ódýran fiskveiðikvóta. Björgólfur Jóhannesson tók við starfi forstjóra tímabundið.
Þorsteinn sagði einnig af sér sem stjórnarformaður útgerðarfélagsins Framherja í Færeyjum og hætti auk þess sem stjórnarformaður Síldarvinnslunar vegna málsins.
