Sjá einnig: 500 milljónum úthlutað úr Loftslagssjóði á fimm árum
Þeir Axel Bjarkar Sigurjónsson, Sölvi Bjartur Ingólfsson og Hálfdán Helgi Matthíasson, nemendur í Tækniskólanum voru meðal þeirra sem mættir voru til að fylgjast með kynningu um sjóðinn. Þeir segjast forvitnir um hvað sjóðurinn hefur upp á að bjóða en segja óvíst hvort þeir muni sækja um. Þessa dagana vinna þeir aftur á móti að spennandi lokaverkefni í skólanum.
„Þetta er í samstarfi við Landvernd og við erum bara að afla okkur upplýsinga um hvernig við getum bætt landið í sambandi við umhverfið og svona,“ segir Axel. „Við erum sem sagt að athuga hvort að samfélagsmiðlar eða tæknin hefur mikil áhrif á umhverfið,“ bætir Sölvi Bjartur við. Þeir hafa komist að ýmsu áhugaverðu í þeirri vinnu að sögn Hálfdáns Helga. „Við erum sem sagt búin að vera að skoða hvernig streymiveitur og samfélagsmiðlar hafa áhrif á umhverfið,“ segir Hálfdán. „Eins og með því að horfa á Youtube-myndbönd, þá er orkan frá serverunum að menga.“
Lokaafurð verkefnisins verður kynnt á næstu vikum. „Við erum að gera heimildamynd sem við sýnum bara eftir tvær vikur og hún verður dæmd og við höfum hana örugglega á Youtube þar sem fólk getur horft á hana,“ segir Axel og hlær.