Unnur nefndi í erindi sínu að aðeins 35% íbúa Afríku hefðu aðgengi að rafmagni og ljóst væri að þjóðir Afríku stæðu frammi fyrir miklum áskorunum að auka rafvæðingu í álfunni. Hún minnti á að forsætisráðherrar Norðurlandanna hefðu sett á laggirnar verkefnið „Norrænar orkulausnir" (Nordic Energy Solutions) einmitt í þeim tilgangi að deila með öðrum þjóðum tækniþekkingu norrænu þjóðanna á sviði endurnýjanlegrar orku til þeirra þjóða sem kalla eftir slíkri þekkingu.

Íslendingar hafa, líkt og íslenski sendiherrann benti á, verið umsvifamiklir í Eþíópíu við innleiðingu á jarðvarma til raforkuframleiðslu en íslenska fyrirtækið Reykjavík Geothermal hefur um árabil verið með samninga við stjórnvöld í landinu um byggingu jarðvarmavirkjana með stuðningi alþjóðlegra fjárfesta.

Frehiwot Woldehanna, ráðherra orkumála í Eþíópíu, sagði í ræðu sinni að Reykjavik Geothermal hefði verið fyrsta einkafyrirtækið í orkugeiranum sem hefði eþíópísk stjórnvöld hefðu gert samning við. Tvær jarðvarmavirkjanir væru í smíðum á vegum þeirra, Corbetti og Tulu Moye, hvor um sig með framleiðslugetu upp á 500 MW.
„Við erum sem þjóð sammála því að grundvallar breytingar eru nauðsynlegar til þess að tryggja sjálfbærari heim. Endurnýjanleg orka er nauðsynleg til að ná markmiðum um sjálfbæra þróun og tryggja aðgengi að hagkvæmri, áreiðanlegri, sjálfbærri og nútímalegri orku fyrir alla," sagði ráðherrann.
Hann bætti við að samkvæmt áætlun stjórnvalda ættu allir íbúar Eþíópíu að vera komnir með rafmagn árið 2025. Aðeins 33% þjóðarinnar eru sem stendur með rafmagn á landsneti. Auk jarðvarma eru miklir möguleikar á orkusviðinu í sól, vatni, vindi og lífmassa.
Þessi grein er hluti af samstarfi Vísis og utanríkisráðuneytisins um miðlun frétta af þróunarsamstarfi Íslands um allan heim. Fréttin birtist fyrst í Heimsljósi, upplýsingaveitu utanríkisráðuneytisins um þróunar- og mannúðarmál.