Rúmlega helmingur svarenda könnunar MMR telur mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili. Sögðu 20 prósent það „frekar mikilvægt“ og 32 prósent „mjög mikilvægt“.
Í könnuninni var líka spurt um ánægju með núgildandi stjórnarskrá og kváðust 35 prósent svarenda óánægð en 25 prósent ánægð.
Á vef MMR segir að konur (56%) hafi reynst líklegri heldur en karlar (49%) til að segja það mikilvægt að Íslendingar fái nýja stjórnarskrá. Karlar (31%) voru hins vegar líklegri en konur (19%) til að segjast ánægðir með núgildandi stjórnarskrá.
„Stuðningsfólk Samfylkingar (85%) og Vinstri-grænna (83%) reyndist líklegast til að segja mikilvægt að fá nýja stjórnarskrá á yfirstandandi kjörtímabili en stuðningsfólk Miðflokks ólíklegast (19%). Þá var stuðningsfólk Miðflokks (59%) og Sjálfstæðisflokks (56%) líklegast til að segjast frekar eða mjög ánægt með núgildandi stjórnarskrá en stuðningsfólk Pírata (78%) og Samfylkingar (64%) líklegast til að segjast óánægt,“ segir um könnunina.
Könnunin var framkvæmd dagana 21. til 25. október 2019 og var heildarfjöldi svarenda 972 einstaklingar, 18 ára og eldri.
