Valur er áfram með fullt hús stiga í Dominos-deild kvenna eftir 40stiga sigur á Breiðabliki, 102-62, er liðin áttust við í fimmtu umferð deildarinnar í kvöld.
Nokkuð jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Valsstúlkur unnu þriðja leikhlutann 32-9 og gerðu þar af leiðandi út um leikinn.
Hallveig Jónsdóttir gerði 25 stig fyrir Val en Kiana Johnson bætti við 24 stigum, átta fráköstum og níu stoðsendingum.
Violet Morrow var stigahæst í liði Blika með 22 stig. Hún tók einnig tíu fráköst. Þórdís Jóna Kristjánsdóttir bætti við fimmtán stigum.
Í Vesturbænum vann silfurliðið frá því á síðustu leiktíð, KR, öruggan sigur á Grindavík, 81-66. KR var 38-29 yfir í hálfleik.
Danielle Victoria Rodriguez var stigahæst með átján stig í jöfnu liði KR en hún tók að auki tólf fráköst og gaf tíu stoðsendingar.
Í liði Grindavíkur var Kamilah Tranese Jackson stigahæst með 24 stig og tók 24 fráköst. Bríet Sif Hinriksdóttir gerði fimmtán stig.
Skallagrímur vann svo öflugan sigur í Keflavík er þær unnu fimm stiga sigur á heimastúlkum, 75-70. Þær lögðu grunninn að sigrinum í fyrri hálfleik.
Keira Breeanne Robinson var stigahæst í liði Skallagríms með 29 stig en Emilie Sofie Hesseldal kom næst með 19 stig.
Daniela Wallen Morillo skoraði 25 stig og Anna Ingunn Svansdóttir bætti við fimmtán stigum.
Staðan í deildinni:
Valur 10 stig
Haukar 8 stig
KR 8 stig
Skallagrímur 6 stig
Keflavík 4 stig
Snæfell 4 stig
Breiðablik 0 stig
Grindavík 0 stig
