Innlent

Hafna mála­til­búnaði tón­fræðings Jóhanns

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Niður­stöðum tón­listar­fræðingsins Judith Finell fyrir hönd Jóhanns Helga­sonar í dóms­máli í Los Angeles er harð­lega mót­mælt.
Niður­stöðum tón­listar­fræðingsins Judith Finell fyrir hönd Jóhanns Helga­sonar í dóms­máli í Los Angeles er harð­lega mót­mælt. Fréttablaðið/Anton Brink
Niður­stöðum tón­listar­fræðingsins Judith Finell fyrir hönd Jóhanns Helga­sonar í dóms­máli í Los Angeles er harð­lega mót­mælt í skýrslum lög­manna og tón­listar­fræðings fyrir­tækjanna sem stefnt er í laga­stuldar­málinu.

Segja lög­mennirnir Barry U. Slotnick, Tal E. Dick­stein og Ava Badi­ee að and­svör Jóhanns við á­liti tón­listar­fræðings sem starfar fyrir þá byggja á sér­fræði­skýrslum sem séu afar hlut­drægar, ó­á­reiðan­legar og ó­rök­studdar. Þess vegna eigi ekki að taka mark á þeim. Þetta kemur fram í greinar­gerð þeirra sem lögð hefur verið fyrir dóm­stólinn í Los Angeles.

„Jafn­vel þótt notuð sé hin gallaða greining sér­fræðings stefnanda [Jóhanns] þá stendur eftir sú stað­reynd að hver þau smá­vægi­legu líkindi sem eru milli laganna tveggja er að finna í vel þekktum eldri verkum,“ segja lög­mennirnir. Jafn­vel séu meiri líkindi milli You Raise Me Up og þessara eldri verka en milli You Raise Me Up og Söknuðar.

Tón­listar­fræðingur Uni­ver­sal og Warner, Lawrence Ferrara, segist í 82 síðna nýrri greinar­gerð sinni hafa yfir­farið greinar­gerð Judith Finell. Skoðun hans á málinu sé ó­breytt.

„Það er ekkert sem styður þá full­yrðingu að tón­fræði­legir þættir sem eru til staðar í You Raise Me Up séu teknir úr Söknuði,“ segir Ferrara. Marg­vís­legir gallar séu á vinnu­brögðum Judith Finell. Hún mistúlki að­ferða­fræði og greiningar hans sjálfs.

„Þegar þeir tón­fræði­legu þættir sem um ræðir eru skildir frá eru líkindin sem eftir standa milli Söknuðar og You Raise Me Up ó­veru­leg, slit­rótt og smá­vægi­leg,“ segir í niður­stöðu Larwrence.

Þess má geta að höfundar You Raise Me Up; norski laga­smiðurinn Rolf Løvland og írski texta­höfundurinn Brendan Graham, hafa enn sem komið er hvorugur til­nefnt lög­mann fyrir sína hönd við dóm­stólinn í Los Angeles.

Sam­kvæmt dag­skrá mun dómarinn á­kveða í desember hvort orðið verður við kröfu lög­manna Uni­ver­sal og Warner um frá­vísun málsins eða hvort það verður tekið til á­fram­haldandi með­ferðar. Haldi málið á­fram má búast við að skipaður verði kvið­dómur til að skera úr um á­greininginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×