Sterling skoraði þrjú marka Manchester City í 5-1 sigri á Atalanta á Etihad í gær. Englandsmeistararnir eru með fullt hús stiga á toppi C-riðils og komnir með annan fótinn í 16-liða úrslit keppninnar.
Með þrennunni komst Sterling í hóp sjö annarra landa sinna sem hafa skorað þrjú mörk í einum og sama leiknum í Meistaradeildinni.
Mike Newell afrekaði það fyrstur Englendinga. Hann skoraði þrjú mörk á níu mínútum þegar Blackburn Rovers vann Rosenborg, 4-1, í desember 1995.
Í 16 ár var Newell sá leikmaður sem hafði skorað þrennu á stystum tíma í Meistaradeildinni. Frakkinn Bafétimbi Gomis sló met Newells þegar hann skoraði þrjú mörk á sjö mínútum í 7-1 sigri Lyon á Dinamo Zagreb 2011.
Andy Cole skoraði tvær þrennur fyrir Manchester United í Meistaradeildinni; gegn Feyenoord 1997 og Anderlecht 2000.

Alan Shearer skoraði þrennu í 3-1 sigri Newcastle United á Bayer Leverkusen 2003. Ári síðar skoraði Wayne Rooney þrennu í sínum fyrsta Meistaradeildarleik; 6-2 sigri United á Fenerbache. Það er jafnframt eina þrenna hans í Meistaradeildinni.
Þá skoraði Danny Welbeck þrennu í 4-1 sigri Arsenal á Galatasary 2014 og Harry Kane í 3-0 sigri Tottenham á APOEL 2017.