Fyrirtaka var í máli Guðjóns Skarphéðinssonar gegn íslenska ríkinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær.
Fram kom að kröfur setts ríkislögmanns eru óbreyttar en í greinargerð hans, sem verið hefur til umfjöllunar bæði í fjölmiðlum og á Alþingi, kemur fram að ríkið krefst sýknu af bótakröfum Guðjóns á þeim grundvelli meðal annars að hann beri sjálfur ábyrgð á því að grunur hafi beinst að honum vegna hvarfs Geirfinns Einarssonar.
Skilja mátti lögmann ríkisins, Andra Árnason, á þann veg að kröfur ríkisins yrðu óbreyttar í málinu nema Alþingi samþykki frumvarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um bætur til þeirra sem sýknaðir voru í Hæstarétti í fyrra.
Ekki hefur verið ákveðið hvenær aðalmeðferð málsins fer fram en í fyrirtökunni í gær veitti dómari aðilum frest til gagnaöflunar.

