Vinningurinn kemur í góðar þarfir
Eins og Vísir hefur áður greint frá er það svo að vinningar koma í góðar þarfir og það á svo sannarlega við um vinninginn að þessu sinni. Þó ekki sé þar vísað til hins almenna lögmáls sem er að fá dæmi séu um að auðkýfingar fái lottóvinning. Heldur hins að vinningshafinn hefur staðið í ströngu að undanförnu. Glænýr bíll hlýtur að mega heita huggun harmi gegn.Ágústa Elín hefur verið umdeild í starfi og það síðasta sem fréttist af málum hennar var að hún hefur nú stefnt íslenska ríkinu vegna embættisfærslna Lilju Alfreðsdóttur menntamálaráðherra. Hún telur Lilju ekki hafa staðið rétt að málum þegar starf hennar var auglýst laust til umsóknar. Lilja sagði henni frá því að þetta stæði til símleiðis og það á sunnudegi.

„Sigurvegarinn er Ágústa Elín Ingþórsdóttir. Hún fær símtal frá mér á eftir ef hún verður ekki búin að hringja í mig áður,“ sagði Haraldur.
Sannarlega plástur á sárin.
Þjóðþekktir vinningshafar
Reyndar er með miklum ólíkindum hversu margir þekktir verðlaunahafar í þessum sama áskriftarleik eru. Og margir hverjir mega heita innvígðir og innmúraðir. En, hugsanlega eru það ekki stjarnfræðilegir möguleikar, það fer eftir því hversu margir eru áskrifendur Morgunblaðsins? Það liggur ekki fyrir en hugsanlega er hærra hlutfall þjóðþekktra einstaklinga meðal áskrifenda en fjöldi þeirra alls gæti gefið til kynna.En þannig hafa áður unnið í áskriftaleiknum Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari og eiginkona Brynjars Níelssonar. Arnfríður er ekki eini dómarinn sem hefur unnið í áskrifendahappdrættinu því Þorgeir Ingi Njálsson þá dómstjóri Héraðsdóms Reykjaness nú í Landsrétti, vann tíu milljón króna Lexus-glæsibifreið í þessu sama happdrætti. Og fyrir ekki svo löngu vann svo Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ferð til Cleveland.