Málverk eftir breska götulistamanninn Banksy seldist á uppboði hjá Sotheby‘s í London í gær á rétt tæpar tíu milljónir punda.
Það er hæsta verð sem fengist hefur fyrir Banksy-verk og er um að ræða stærsta þekkta málverk listamannsins, sem yfirleitt málar á húsveggi.
Verkið er fjórir metrar á breidd og sýnir breska þingið í öllu sínu veldi en í stað þingmanna er salurinn fullur af simpönsum.
Listamaðurinn brást sjálfur við tíðindunum á Instagram-reikningi sínum og sagði leiðinlegt að málverkið væri ekki lengur í sinni eigu, en seljandinn er óþekktur.
Bansky málaði verkið árið 2009.
