Í sumar var kynnt skipulags-og matslýsing vegna aðalskipulagsbreytinga á jörðunum Leyni 2 og 3 í Rangárþingi ytra sem áður hét Stóri klofi. Þannig fyrirhugaði malasískt ferðaþjónustufyrirtæki sem kallast Iceland Igloo Village að byggja upp þorp fyrir nokkur hundruð gesti og þjónustu í kring.
Ný skipulags og matslýsing hefur verið gerð fyrir svæðið eftir athugasemdir frá íbúum þar sem gert er ráð fyrir 360 manna byggð. Sumarhúsa-og landeigendur hafa frá upphafi gert athugasemdir við áformin þar sem byggðin sé á vatnsverndarsvæði og fæði vatnsból allrar sveitarinnar og vatnsból Hellu að auki.

Vatnsverndarsvæði í hættu
„Þetta er náttúrulega mjög alvarlegt því þarna er verið að setja þéttbýli við friðsæla sveit og það sem er verst að þarna er verið að setja þéttbýli ofan á svæði sem heitir fjarrsvæði vatnsverndar. Vatnið sem rennur þarna undir hrauninu fer undir Minnivallarlækinn og berst í Vatnsból Hellu á 65 dögum,“ segir Ásgeir.Hann óttast að þetta geti verið tímaprengja og telur vatnsvernd eiga að njóta vafans. Málinu hefur verið komið til sveitarstjórnar og verður deiluskipulag kynnt í áframhaldinu. Ásgeir er svartsýnn á áframhaldið.
„Vatnsverndin virðist ekki vera í forgangi hjá þessari sveitarstjórn ólíkt fyrri sveitarstjórn sem hafði hana í öndvegi,“ segir hann.
Engin byggingar- eða rekstrarleyfi fyrir hjólhýsum
Þá segir hann að í sumar hafi verið rekin fimmtán hjólhýsi á svæðinu án tilskilinna leyfa.„Það var byrjaða að grafa fyrir rotþró og lögnum í október í fyrra og við létum byggingafulltrúa vita. Aðveituvatni og fráveituvatni hefur hins vegar verið veitt til og frá þeim í allt sumar en um er að ræða hálsársbyggð. Þegar ég fór þarna um í gær sá ég að það var ennþá verið að gera það,“ segir Ásgeir.
Hann segir að í leyfisveitingu hafi komið fram að hjólhýsin væru ekki tengd við fráveitu eða aðveitu enda þurfi byggingarleyfi fyrir slíkt sem sé ekki fyrir hendi.
„Þannig að þarna er farið á skjön við lög og lögin brotin vísvitandi,“ segir Ásgeir. „Hjólhýsin eru ekki heldur með rekstrarleyfi þannig að þetta mál er allt í ólestri,“ segir hann að lokum.