Valgerður og Guðjón bóndi hennar hafa ræktað landnámshænur frá árinu 1977 og eiga nú hátt í hundrað. „Svo eru ungar að auki, líklega svona um 200,“ segir Valgerður og lýsir því að sumar hænurnar fái að liggja á eggjum og unga þannig út. „Ungana sem ég hef til minnar ræktunar reyni ég að láta hænur ala upp. Þá geta þeir verið úti og það þarf ekkert að hafa fyrir því að venja þá við. En aðalútungunin fer fram í vélum.“
Spurningu um hvort íslenska landnámshænan sé í nokkurs konar landnámi hér á landi núna svarar Valgerður: „Já, það má alveg segja það, hún er vinsæl og fáir fá sér öðruvísi hænur. Það fóru 660 ungar frá mér til Hríseyjar í sumar. Þar er verið að stofna stórt bú með landnámshænum, þar sem einangrunarstöðin var. En svo er reyndar verið að smygla eggjum úr alla vega hænum til landsins, silkihænum, brahmahænum, svörtum þýskum og allskonar stofnum sem ég hef ekki nöfn yfir. Við verðum að vera á verði til að láta þá ekki blandast íslenska stofninum.“ Hún segir dæmi um að dverghænur sem hafi verið nokkuð lengi á landinu hafi smitað þann íslenska. Þær séu fallegar en verpi voða lítið.

Sjálf voru þau hjón með kúabú, ásamt hænsnarækt framan af. „Það brunnu hjá okkur útihús árið 2006, það var hræðilegt. Við misstum kýrnar okkar og hænurnar. Þá hættum við með kýr því við höfðum ekki efni á að byggja nýtt kúabú. En ég átti egg hér heima og náði líka í egg sem voru til sölu í Þingborg og setti strax í útungunarvél. Nú segjum við að við séum H-bændur því við erum með hey, hunda, hross, hænur og hunang á Húsatóftum,“ segir Valgerður og tekur fram að hundarnir séu Íslendingar. Um hestana þarf ekki að efast.
Þess má geta að frá Selfossi að Húsatóftum eru 28 kílómetrar.