Ferðaþjónustuaðilar á Vestfjörðum hafa löngum kalla eftir því að ferðamönnum sé dreift betur um landið. Ferðaþjónusta þar hefur þó, líkt og annars staðar vaxið á síðustu árum, en þó ekki í sama mæli.
Í Steingrímsfirði er hvalaskoðun, og þegar fréttastofan var það á ferð á dögunum, var hvalaskoðunarskipið Láki að koma inn til hafnar á Hólmavík, með fullan bát af ferðamönnum.
Víðir Björnsson, skipstjóri skipsins, segir það hafa verið hreina tilviljun að farið var að gera út hvalaskoðunarbát frá Hólmavík.
„Eigandinn var bara hér á ferðalagi og þegar hann er að koma niður Þröskuldana þá sér hann hvalina blása hérna úti. Þetta var orðinn svona aukabátur þegar nýi báturinn var keyptur í Grundafjörð, þannig byrjaði þetta fyrir þremur árum,“ segir Víðir.

Eru líka með starfsemi á Snæfellsnesi
Fyrirtækið Láki Tours gerir út tvo aðra báta frá Snæfellsnesi. Víðir segir að hvalaskoðunartímabilið í Steingrímsfirði hafi lengst ár frá ári og að svæðið sé einstakt til hvalaskoðunar.„Núna verðum við fram í miðjan september og það er bara búið að ganga mjög vel. Við fengum eina viku sem að var léleg en annars sjáum við hval á hverjum einasta degi,“ segir Víðir.
Hvað eruð þið að sjá marga hvali?
„Þeir eru stundum jafn margir og farþegarnir. Þeir voru átta í þessum túr en þetta getur verið allt upp í fimmtán hvalir,“ segir Víðir.
Víðir segir reksturinn hafa vaxið síðan farið var af stað fyrir þremur árum. Hann segir að þó svo sé megi stýra ferðamönnum meira inn á þetta svæði.
„Við erum rúmlega búnir að tvöfalda síðan í fyrra en það mætti gjarnan vera meira,“ segir Víðir.
Hvernig verður svo veturinn, gerið þið út allt árið?
„Í Ólafsvík erum við með þetta á ársgrundvelli en hérna verðum við til 15. september og byrjum svo vonandi fyrr, jafnvel um miðjan maí,“ segir Víðir.
