Afturelding hefur farið vel af stað í Olís-deild karla og er með fullt hús stiga eftir tvo leiki.
Afturelding vann KA með minnsta mun, 28-27, í 1. umferðinni en í gær unnu Mosfellingar öruggan sigur á Stjörnumönnum, 22-30.
Birkir Benediktsson er markahæstur Mosfellinga á tímabilinu með 13 mörk.
Hann skoraði tíu mörk úr jafn mörgum skotum gegn KA. Birkir skoraði svo úr fyrstu þremur skotum sínum í leiknum gegn Stjörnunni og var því búinn að nýta fyrstu 13 skotin sín á tímabilinu. Ekki amalegt fyrir skyttu.
Birkir klikkaði loks á sínu fyrsta skoti á tímabilinu þegar Brynjar Darri Baldursson, markvörður Stjörnunni, varði frá honum á 39. mínútu í leiknum í Mýrinni.
Birkir spilaði reyndar ekki mikið í leiknum í gær. Hornamaðurinn Gestur Ólafur Ingvarsson leysti stöðu hægri skyttu með stæl og skoraði sex mörk.
Næsti leikur Aftureldingar er gegn Fram á sunnudaginn.
