Fótbolti

Segja að SMS frá Messi til Neymar hafi verið upphafið að sápuóperu sumarsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og Neymar.
Lionel Messi og Neymar. Getty/ The Asahi Shimbun
Félagsskiptaglugginn á Spáni lokaði í gær og Neymar er ennþá leikmaður Paris Saint Germain. Hann gerði allt í sínu valdi til að komast aftur til Barcelona en félögin náðu ekki saman um kaupverð.

Evrópsku blöðin hafa fjallað mikið um þetta mál í allt sumar og þetta hefur verið félagsskiptasápuópera af bestu gerð.

Neymar var ekki aðeins orðaður við Barcelona heldur einnig við bæði Real Madrid og Juventus. Hann þarf nú að stilla hausinn upp á ný og átta sig á því að hann er að fara spila í búningi Parísarliðsins, að minnsta kosti fram í janúar.

Franska blaðið L’Equipe skrifar upphaf málsins á Lionel Messi og eitt SMS textaskilaboð hafi fengið Neymar til að leggja ofurkapp á það að komast aftur til Barcelona.





Samkvæmt heimildum þessa virta franska íþróttablaðs þá sendi Messi sínum gamla liðsfélaga þessi skilaboð eftir að hann heyrði af því að Neymar vildi komast í burtu frá PSG.

Messi á að hafa skrifað: „Við þurfum á þér að halda til að vinna aftur Meistaradeildina.“

Lionel Messi á að hafa síðan sett pressu á forráðamenn Barcelona að þeir myndu reyna að kaupa Neymar frá Paris Saint Germain.

Neymar reyndi í allt sumar að láta draum sinn verða að veruleika en sætti sig loks við það á sunnudaginn að ekkert yrði að þessu. Neymar var meðal annars sagður tilbúinn að gefa eftir átján milljónir pund, 2,7 milljarða króna, af eigin pening til að ná þessu í gegn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×