Félagið 365 Invest ehf., sem er alfarið í eigu 365 miðla hf., keypti í hádeginu 20 milljón hluti í Skeljungi. Kaupverðið var 7,955 krónur á hlut og nema heildarkaupin því um 160 milljónum króna. Skeljungur greindi Fjármálaeftirlitnu frá viðskiptunum nú á fjórða tímanum því um fruminnherjaviðskipti er að ræða.
Kaupandinn, félagið 365 Invest, er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur en hún er eiginkona Jóns Ásgeirs Jóhannessonar sem er varaformaður stjórnar Skeljungs. Félög í eigu Ingibjargar fara nú með atkvæðisrétt vegna 235.500.000 hluta í Skeljungi, ýmist í eigin nafni eða gegnum framvirka samninga, eða sem nemur um 11 prósent útgefinna hluta.
Sjá einnig: Tiltekin kostaði Ingibjörgu milljarð
Ingibjörg tryggði sér rúmlega tíu prósenta hlut í Skeljungi í gegnum 365 miðla í apríl síðastliðnum og varð þannig stærsti hluthafi í félaginu. Markaðsvirði þess hlutar nam um 1,7 milljörðum króna og fór meðal annars í gegnum fjármögnun hjá Kviku banka.
Ingibjörg fór af því tilefni fram fram á boðað yrði til hluthafafundar í Skeljungi þar sem stjórnarkjör yrði sett á dagskrá. Fundurinn fór fram í lok maí og var eiginmaður Ingibjargar, fyrrnefndi fruminnherjinn Jón Ásgeir, kjörinn í stjórn Skeljungs.
Fyrr í dag greindi Ingibjörg frá því að 365 miðlar hefðu tapað rúmlega milljarði króna á síðasta ári.

