Foreldrasamtökum gegn áfengisauglýsingum bárust nokkrar ábendingar vegna vörunnar þar sem henni er stillt upp innan um svokallaða heilsudrykki í Hagkaupi í Garðabæ. Um er að ræða drykk sem heitir GT’s Kombucha. Aftan á flöskunni er þess getið að þetta áfengismagn geti náðst í flöskunum. Framan á flöskunum stendur að einstaklingar þurfi að vera orðnir 21 árs til að kaupa drykkinn.
„Við í foreldrasamtökunum fórum í Hagkaup í Garðabæ til að sannreyna að þessi vara stæði öllum til boða. Þarna fer að okkar mati fram ólögleg sala áfengra drykkja og því höfum til tilkynnt þetta til lögreglu. Hagkaup hefur hvorki vínveitingaleyfi né leyfi til sölu áfengis,“ segir Árni Guðmundsson, formaður samtakanna.

Fréttablaðið hafði samband við Hagkaup í Garðabæ þar sem staðfest var að þessi vara hefði verið til sölu í versluninni. Hins vegar hafði verslunin ekki vitneskju um að þarna færi drykkur sem gæti náð svo miklu áfengisinnihaldi. Drykknum sé dreift í gegnum Aðföng og því væri það fyrirtækisins að svara fyrir drykkinn.
Hvorki náðist í forsvarsmenn Aðfanga né í lögregluna á höfuðborgarsvæðinu sem hefur fengið málið inn á sitt borð. Foreldrasamtök gegn áfengisauglýsingum hafa ekki fengið svar frá lögreglunni um hvort embættið ætli sér að skoða málið og taka drykkinn úr sölu.