Erlent

Reyna að stoppa Boris Johnson fyrir dómi

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar
Johnson vill út hvað sem tautar og raular.
Johnson vill út hvað sem tautar og raular. Nordicphotos/AFP
Skoskur dómstóll mun í næsta mánuði taka fyrir mál sem um sjötíu stjórnarandstöðuþingmenn hafa höfðað í von um að dómstóllinn úrskurði að Boris Johnson forsætisráðherra megi ekki slíta þingi til þess að ganga út úr Evrópusambandinu án samnings. Þetta var niðurstaða dómstólsins í gær.

Andstæðingar Johnsons og slíkrar útgöngu óttast að Johnson gæti beitt þessu mögulega vopni á dögunum fyrir settan útgöngudag, 31. október, til þess að knýja fram samningslausa útgöngu í trássi við yfirlýstan vilja meirihluta þingmanna. Johnson hefur ekki lýst sérstaklega yfir áhuga sínum á þeirri útkomu.

Þrír þættir gera atburðarásina hins vegar nokkuð líklega. Í fyrsta lagi er Johnson staðráðinn í því að halda í settan útgöngudag og ekki fresta honum líkt og áður hefur verið gert vegna samningsleysis. Í öðru lagi er nokkuð ólíklegt að samningur muni liggja fyrir í októberlok. Breska þingið hefur í þrígang hafnað samningi ríkisstjórnar Theresu May og Evrópusambandstoppar segja ómögulegt að semja upp á nýtt. Í þriðja lagi er þingið andsnúið samningslausri útgöngu og því yrði erfitt fyrir Johnson að ná þess háttar útgöngu þar í gegn.

Skoðanakönnun sem ComRes gerði og The Telegraph birti í gær sýndi að 44 prósent aðspurðra myndu styðja forsætisráðherrann til þess að klára útgöngumálið hvað sem tautar og raular. Jafnvel þótt það þýddi að slíta þurfi þingi til að koma í veg fyrir synjun þingheims. 37 prósent sögðust andvíg en nítján prósent óviss.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×