Ásthildur sagði í viðtali við ríkisútvarpið í fyrrakvöld að það sé eðlilegt að Íslendingar horfi til þess að draga úr komum skemmtiferðaskipa til landsins vegna mengunar sem af þessum ferðum hljótist.
Þessi ummæli gagnrýnir Gunnar og segir enga umræðu hafa farið fram í stjórnkerfinu um skemmtiferðaskip og mögulegar takmarkanir á komum þeirra.

„Við erum á hinn bóginn að tala um að fjölga ferðamönnum með beinu flugi norður og að auka vægi ferðaþjónustu á Norðurlandi svo þetta skýtur skökku við verð ég að segja.“
Hann segir einnig að sú umræða sem skapast hefur vegna mælinga dansks umhverfisverkfræðings sé á villigötum. „Það er alveg ljóst að það þarf að skoða þessa hluti og rannsaka mun betur til að taka einhverjar afdrifaríkar ákvarðanir. Við ættum að flýta okkur hægt og safna mun meiri mælingum. Ég hef ekki orðið var við það að bæjarbúar hafi kvartað mikið yfir mengun af völdum skemmtiferðaskipa hér í bæ,“ bætir Gunnar við.
Gunnar óskar þess að umræðan fari fram í bæjarráði á morgun um þessi ummæli bæjarstjóra.
Ásthildur segir það af og frá að hún vilji takmarka skipakomur skemmtiferðaskipa. „Ég er alls ekki að boða fækkun á komum skemmtiferðaskipa til Akureyrar. Það eina sem ég hef sagt er að við ættum að læra af því hvernig nágrannaþjóðir okkar vinna að þessum málum með umhverfisvernd í huga,“ segir Ásthildur. „Hvort og þá hvernig ræðst í samráði þeirra sem eiga hagsmuna að gæta.“