„Þegar við leitum á netinu þá erum við löt og förum aðeins inn á fyrstu hlekkina sem koma upp. Við förum almennt ekki yfir á blaðsíðu tvö eða þrjú. Bókunarvélarnar hafa hertekið þessa fyrstu blaðsíðu úti um allan heim,“ segir Hermann. Bendir hann á að Booking sé einn af verðmætustu viðskiptavinum Google og hafi því yfirburðastöðu hvað varðar sýnileika.
Áður hefur verið fjallað um háar söluþóknanir bókunarfyrirtækja eins og Booking og Expedia. Þær eru frá 15 og allt upp í 30 prósent af hverri bókun en fyrir 20 árum voru þær aðeins um 6 prósent. Hóflega áætlar hann að á bilinu 7 til 9 milljarðar króna fari úr landi í formi þóknana á hverju ári en ekki 5 milljarðar eins og áður hefur verið reiknað með.

„Lægsta prósentan sem boðið er upp á er 15 prósent og þá sést þú ekki, þú ert ekki til. Meðal prósentan er því orðin 22 til 24. Ég tel að söluþóknanirnar muni halda áfram að hækka nema fótum verði spyrnt við,“ segir Hermann.
Rætt hefur verið um að setja á laggirnar séríslenska bókunarvél. Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir ferðamálaráðherra telur réttast að Samtök ferðaþjónustunnar myndu leiða slíka vinnu ef til hennar kæmi. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri SAF, hefur verið varkár í umræðunni og bent á að hár kostnaður gæti falist í þeirri leið.
Hermann segir að innan SAF rekist hagsmunir á. „Icelandair, sem flytur langsamlega mest af ferðamönnum til landsins, er smásöluaðili fyrir Booking. Einnig Dohop. Þannig að það er gegn þeirra hagsmunum að fá íslenska síðu sem myndi keppa gegn bókunarvélunum,“ segir hann.
Þó að síður eins og booking.com séu markaðsráðandi eru til dæmi um svæði sem hafa komið sér upp eigin bókunarsíðum, til dæmis Arizona-fylki og svæði í Skotlandi.
Hermann telur mögulegt að gera slíkt hið sama hér. „Þá skynja bókunarrisarnir að það er komin viðspyrna. Vonandi hemja þeir sig í hækkunum og verða viðmótsþýðari í viðræðum um lækkanir,“ segir hann.