Þetta kemur fram í tilkynningu frá stjórninni sem send hefur verið á fjölmiðla. Þar er vitnað orðrétt i ummæli Sverris í fréttinni: „En svo frétti ég af hópi sem var inni í Faxaflóanum, sem var sennilega þessi hópur, og það voru sex hvalaskoðunarskip í kringum hann. Þannig að mér finnst nú ekki ólíklegt að það gæti líka truflað þau. Sem sagt hávaði frá skipum.“
Stjórn Hvalaskoðunarsamtaka Íslands segir að þann föstudag og dagana undan hafi engir hvalaskoðunarbátar verið nærri grindhvalavöðunni eftir því sem næst verður komist. Nokkrir hvalaskoðunarbátar hafi fylgst með grindhvalavöðunni sem var í höfninni í Keflavík þann 26. júlí síðastliðinn.
„En þar voru einnig aðrir einkabátar og þá tókst að reka hvalina á haf út aftur,“ segir í yfirlýsingunni frá stjórninni.

„Á undanförnum árum hafa hvalaskoðunarfyrirtæki, Háskóli Íslands ásamt erlendum aðilum unnið að rannsóknum á mögulegum áhrifum hvalaskoðunar á hegðun dýranna eins og fæðuöflun og hafa þær leitt í ljós að áhrifin eru lítil eða engin til lengri tíma litið,“ segir í yfirlýsingunni.
Stjórnin segir að það sé ábyrgðarhluti að fulltrúi Hafrannsóknarstofnunar skuli setja slíkt fram á opinberum vettvangi án þess að geta stuðst við vísindi eða rannsóknir máli sínu til stuðnings.
Óskar stjórnin eftir því að yfirlýsing starfsmannsins frá því í gær verði dregin tafarlaust til baka.
Edda Elísabet Magnúsdóttir sjávarlíffræðingur segir orð líffræðings Hafrannsóknarstofnunar verulega óvarleg.
„Það eru fjölmörg dæmi þess að grindhvali reki á land hér og þar í heiminum, jafnvel þar sem hvalaskoðun er mikil. En þrátt fyrir töluverðar rannsóknir finnast engin skýr dæmi um það að hvalaskoðun sé um að kenna,“ skrifar Edda á Facebook.
„Það eru fjölmargar ástæður sem geta leitt til hvalreka af þessu tagi. Því miður leitumst við gjarnan eftir einföldum og skýrum svörum frá fréttamiðlum, þannig tapa fréttirnar oft sannleiksgildi sínu. Sú lenska hefur leitt til þess að höfuðáhersla er hér lögð á ansi langsótta athugasemd í fréttinni. Með þessari fyrirsögn er einfaldlega farið með fleipur og getgátum kastað fram án nokkurs stuðnings vísindanna,“ skrifar Edda.