Johnson fékk kaldar móttökur í fyrstu heimsókn sinni til Skotlands eftir að hann tók við sem forsætisráðherra í síðustu viku. Meirihluti Skota greiddi atkvæði með áframhaldandi veru Bretlands í Evrópusambandinu í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016 og Johnson er afar óvinsæll þar. Baulað var á forsætisráðherrann og fylgdarlið hans fyrir utan ráðherrabústaðinn í Edinborg þar sem hann fundaði með Sturgeon í gær.
„Það lætur mig halda að hvað sem því líður að Boris Johnson segi opinberlega að hann vilji helst gera samning sé hann í raun og veru að sækjast eftir útgöngu án samnings vegna þess að það er rökrétt niðurstaða harðlínustefnunnar sem hann hefur markað. Ég tel að það sé gríðarlega hættulegt fyrir Skotland og í raun fyrir allt Bretland,“ sagði Sturgeon.
Breska pundið hríðféll í dag og er ástæðan talin sú að fjárfestar veðji á að harðlínustefna Johnson eigi eftir að leiða til óstöðugleika á mörkuðum gangi Bretar úr sambandinu án samnings, að sögn Reuters-fréttastofunnar.