Mikinn reyk leggur frá brunanum en slökkvilið hefur óskað eftir því að íbúar í nágrenni brunanst loki gluggum og hækki hitastigið í vistarverum sínum finni þeir reykjarlykt.
„Það var vaktmaður sem var hérna í nótt og hann sagði að það væri eldur hérna í húsinu. Hann hringdi í eigandann en það var mikill eldur á tveimur stöðum í húsinu þegar við komum,“ sagði Guðmundur.

Þegar rætt var við Guðmund hafði dregið lítillega úr eldinum og útlitið ekki eins svart og þegar fyrst var komið að. Fiskmarkaðurinn er við suðurhöfn Hafnarfjarðar en mikill eldsmatur er innanhúss.

Uppfært klukkan 06:18:
Enn er gríðarlegur eldur í húsinu og mikill svartur reykur stígur til himins. Á tímabili leit út fyrir að slökkvilið hefði náð tökum á eldinum en svo virðist sem hann hafi magnast upp aftur, samkvæmt upplýsingum frá vettvangi. Allt tiltækt lið á höfuðborgarsvæðinu var kallað út vegna brunans klukkan 20 mínútur yfir þrjú. Þá voru slökkviliðsmenn á bakvakt og í sumarfríi einnig kallaðir út.
Veður er gott á höfuðborgarsvæðinu og hefur það komið sér vel í slökkvistarfinu. Vindátt er þó breytileg og beinir slökkvilið því þess vegna enn til íbúa í nágrenninu að loka gluggum og hækka hita í húsum sínum.
Mikill hiti er í húsinu en slökkviliðsmenn njóta aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra sem er á vettvangi með hitamyndavélar.
Fréttin hefur verið uppfærð.



