Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins var tilkynnt um eldsvoðann skömmu eftir klukkan þrjú í nótt. Engin slys urðu á fólki en því er beint til íbúa í nágrenninu að loka gluggum og hækka hitastig í vistarverum sínum.
Sjá einnig: „Á tímabili vorum við hræddir um að missa allt húsið“
Vernharð Guðnason deildarstjóri aðgerðasviðs hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins segir í samtali við fréttastofu að slökkvistarf gangi ágætlega. Hann ítrekar að strax hafi áhersla verið lögð á að bjarga þeim hluta hússins sem var ekki þegar í ljósum logum.
„Þetta gengur alveg þokkalega. Þetta er búið að vera barátta,“ segir Vernharð. „Þetta var mjög mikið strax í upphafi.“
Enn leggur mikinn reyk frá Fiskmarkaðnum en hann er þó töluvert ljósari en í morgun, sem bendir til þess að vel gangi að ráða niðurlögum eldsins. Mikill eldsmatur er þó í húsinu, að sögn Vernharðs.
„Við erum að slökkva núna í hreiðrum og glæðum og þar sem er eldur enn þá undir braki. Hér er mikill eldsmatur í þessu húsi, plastkör, lýsi, fiskúrgangur og annað sem brennur vel.“
Er hægt að segja til um eldsupptök á þessari stundu?
„Ekki hugmynd.“

„Það var ljóst þegar fyrsti bíll kom á staðinn að þetta væri mikill eldur. Það var ástæða til að ætla að mögulega gæti verið manneskja þarna inni en fljótlega náðum við að leita af okkur grun,“ segir Vernharð. Þá hafi reykkafararnir þurft fljótt frá að hverfa vegna mikils hita og reyks.
Vernharð gerir ráð fyrir að slökkvistarf haldi áfram fram eftir degi. Lögregla hefur lokað fyrir umferð í Fornubúðir frá Flensborgartorgi og þá er einnig lokað á Óseyrarbraut á milli Fornbúða og Stapagötu, auk Cuxhavengötu. Rafmagnstruflanir eru jafnframt á svæðinu.
„Við erum búin að gefa það út til fyrirtækja í nágrenninu að við hleypum ekkert inn í húsin hérna í kring fyrr en í fyrsta lagi um hádegi þannig að við tökum stöðuna þá.“