Sjá einnig: „Það er allt farið“
Um fimmtán slökkviliðsmenn voru enn að störfum á vettvangi brunans nú skömmu fyrir klukkan eitt. Þeir hafa síðustu klukkutímana farið í gegnum brakið og slökkt í glæðum og minniháttar eldum, að sögn varðstjóra hjá slökkviliðinu.
Ekki er búið að gefa það út að eldurinn hafi verið formlega slökktur en gert er ráð fyrir að slökkvistarf haldi áfram í nokkra klukkutíma í viðbót. Varðstjóri segir vindáttina nú að snúast og gæti reykur úr rústunum því borist yfir nærliggjandi fyrirtæki sem hingað til hafa sloppið við reykinn.

Þá er ekkert enn útséð með eldsupptök en lögregla fær vettvanginn afhentan þegar slökkvistarfi lýkur.
Komið hefur fram að starfsemi Fiskmarkaðs Suðurnesja er ekki í þeim hluta hússins sem varð eldi að bráð í nótt, þó að ljóst þyki að einhverjar reyk- og hitaskemmdir hafi orðið þar.
Altjónið varð í hinum hluta hússins, þar sem fyrirtækin IP-útgerð og IC Core voru með starfsemi. Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri IP-útgerðar, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að ekkert væri eftir af starfseminni eftir eldsvoðann. Tjónið væri þannig gríðarlegt fyrir fyrirtækið.
Í spilaranum hér að neðan má sjá myndir og myndbönd af framvindu brunans frá því eldsnemma í morgun.