Verslunarmiðstöðin Kringlan hefur verið tilnefnd til verðlauna frá Alþjóðlegum samtökum verslunarmiðstöðva, ISCS. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Kringlunni.
Kringlan hlaut tilnefningu í flokk þjónustu vegna rafrænnar aðstoðar við viðskiptavini í jólagjafaleit síðustu dagana fyrir jól. Verkefnið heitir Neyðarpakkatakkinn“ en hann var hannaður eins og SOS merki og auglýstur á Facebook. Fengu þeir sem notuðu þessa þjónustu samband við þjónustufulltrúa hjá Kringlunni til að finna jólagjöfina. Þjónustuna notuðu yfir þúsund viðskiptavinir.

Baldvina Snælaugsdóttir, markaðsstjóri Kringlunnar segir þessa tilnefningu mikinn heiður: „Við erum himinlifandi með tilnefninguna enda gríðarleg viðurkenning fyrir okkur. Góð viðbrögð viðskiptavina við þessari einföldu þjónustu gegnum netið styrkir þá stefnu sem Kringlan hefur markað sér í stafrænni vegferð til að mæta betur þörfum viðskiptavina með þeim hætti og þeirri tækni sem heimurinn býður upp á í dag.“
Verðlaun frá ICSC eru mjög eftirsótt meðal annars vegna þess að samtökin eru alþjóðlegt fagráð verslunarmiðstöðva með yfir 55 þúsund meðlimi í 90 löndum.