Sport

Eygló Ósk stífnaði upp í byrjun og var langt frá sæti í undanúrslitum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eygló Ósk Gústafsdóttir í sundinu í nótt.
Eygló Ósk Gústafsdóttir í sundinu í nótt. Mynd/SSÍ/Simone Castrovillari
Eygló Ósk Gústafsdóttir og Kristinn Þórarinsson syntu í morgun í undanrásum á heimsmeistaramótinu í 50 metra laug í Gwangju í Suður-Kóreu. Þau náðu hvorug að tryggja sér sæti í undanúrslitum.

Eygló Ósk Gústafsdóttir synti í 100 metra baksundi og náði bara 42. besta tímanum. Hún kom í mark á 1:03,46 mín. en Íslandsmet hennar frá því á EM50 í London 2016 er 1:00,25 mín.

Eygló sagði í samtali við fréttaritara SSÍ eftir sundið að hún hefði stífnað upp strax í byrjun og ekki náð sínum takti í sundinu. Hennar helsta einkenni hafa verið löng og sterk sundtök en hún náði ekki að nýta sér það í þessu sundi.

Eygló Ósk var samt jákvæð að sundi loknu og sagðist geta nýtt sér þetta sund til að lagfæra það sem þyrfti nú þegar hún væri að skipta úr 100 metra baksundi yfir í 200 metra baksund.

Kristinn ÞórarinssonMynd/SSÍ/Simone Castrovillari
Kristinn Þórarinsson endaði í 46. sæti í undanrásum í 100 metra baksundi.

Kristinn náði sínum öðrum besta tíma í þessu sundi þegar hann kom í mark 56,99 sekúndum sem er 36/100 frá hans besta í greininni frá því á Íslandsmeistaramótinu í apríl síðastliðnum.

Kristinn byrjaði sundið hratt náði ágætum millitíma (27,16 sek.) en þreytan fór að segja til sín í síðari hluta sundsins. Íslandsmet Arnar Arnarsonar frá því á HM50 í Fukuoka árið 2001 er 54,75 sekúndur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×