Mahmoud Abbas, forseti Palestínumanna, segir að þeir ætli ekki lengur að virða samninga sem palestínsk yfirvöld hafa gert við Ísraelsmenn í kjölfar þess að ísraelski herinn jafnaði hús Palestínumanna á milli Jerúsalem og Vesturbakkans við jörðu.
Hæstiréttur Ísraels komst að þeirri niðurstöðu að íbúðarhús Palestínumanna í Wadi Hummus væru of nálægt mörkum Vesturbakkans. Ísraels stjórnvöld rifu því húsin og misstu sautján manns heimili sín, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Forystufólk Palestínumanna kom saman til neyðarfundar og í kjölfarið lýsti Abbas því yfir að samningar við Ísraelsstjórn undanfarinnar tuttugu og fimm ára yrðu ekki lengur virtir, þar á meðal á sviði öryggismála.
Ekki er ljóst hvað sú yfirlýsingin þýðir í reynd. Abbas hefur áður hótað því að rifta samningum við Ísraelsmenn en aldrei fylgt þeim hótunum eftir. Ísraelsmenn hafa þá hótað því að riftun þýddi endalok sjálfstjórnar Palestínumanna á landsvæðum þeirra.
