Sport

Guðbjörg Jóna komst örugglega í undanúrslitin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kláraði verkefni dagsins af fagmennsku.
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir kláraði verkefni dagsins af fagmennsku. Mynd/FRÍ
Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir tryggði sér í dag sæti í undanúrslitum í 200 metra hlaupi á Evrópumeistaramóti 20 ára yngri sem fer fram þessa dagan í Borås í Svíþjóð.

Guðbjörg Jóna kom í mark á 24,06 sekúndum og varð í öðru sæti í sínum riðli. Þrjár efstu úr hverjum riðli tryggðu sér sæti í undanúrslitunum.

Guðbjörg Jóna kláraði verkefni af fagmennsku og sætið í undanúrslitunum var aldrei í hættu hjá henni.

Riðill Guðbjargar var hægari en fyrsti riðilinn en tíminn skipti engu máli að þessu sinni því það var nóg að ná einu af þremur fyrstu sætunum.

Guðbjörg Jóna hefur þegar stimplað sig inn sem einn besti spretthlaupari í sögu Íslands. Hún á Íslandsmetið í bæði 100 og 200 metra hlaupi. Íslandsmetið hennar í 200 metra hlaupi er 23,45 sekúndur.

Undanúrslitin fara síðan fram í fyrramálið eða klukkan 9.00 að íslenskum tíma. Úrslitahlaupið fer síðan fram seinna um daginn.

Frjálsíþróttasambandið gerir sér vonir um að Guðbjörg Jóna komist í úrslitahlaupið og berjast um verðlaun á morgun en það kom fram í frétt um mótið á heimasíðu sambandsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×