Lögreglan í London, höfuðborg Bretlands, segist telja að lík sem fannst í almenningsgarði í suðurhluta borgarinnar hafa verið laumufarþega um borð í vél á leið til lendingar á Heathrow-flugvelli.
Hinn grunaði laumufarþegi er talinn hafa laumast óséður inn í flugvél félagsins Kenya Airways. Talið er að hann hafi hrapað úr vélinni þegar dekk vélarinnar voru sett út til lendingar. Independent greinir frá.
Bakpoki, vatn og matur fundust þá í rými lendingarbúnaðarins þegar til Heathrow var komið.
Garðurinn þar sem lík mannsins fannst er í um 20 kílómetra fjarlægð frá flugvellinum sjálfum og því er áætlað að vélin hafi verið í um þrjú þúsund feta hæð þegar maðurinn hrapaði. Það eru rúmlega níu hundruð metrar.
Í tilkynningu frá lögreglunni í London segir að unnið sé að því að bera kennsl á lík mannsins.
„Lögregla var kölluð til klukkan 15:39 á sunnudaginn 30. júní í íbúðahverfi við Offerton-veg í Clapham, eftir að lík fannst í almenningsgarði. Lögreglumenn héldu á vettvang ásamt sjúkraflutningamönnum. Lík, sem talið er vera af karlmanni (aldur óþekktur), fannst í garðinum.“
Í tilkynningunni kemur einnig fram að krufning muni fara fram á manninum.
„Ekki er talið að andlát mannsins hafi borið að með saknæmum hætti. Rannsókn er þegar hafin á nákvæmum tildrögum dauða mannsins.“
Þetta er ekki fyrsta tilfellið þar sem lík einhvers sem talinn er hafa hrapað úr flugvél finnst í London á síðustu árum. Þau lík sem hafa fundist hafa þó verið talsvert nær flugvellinum heldur en í þessu tilfelli.
