Atlético Madrid virðist hafa unnið kapphlaupið um portúgalska ungstirnið Joao Félix.
Fjölmiðlar á Spáni og í Portúgal greina frá því að Atlético muni greiða riftunarverð í samningi Félix við Benfica sem ku vera 107 milljónir punda.
Félix er ætlað að fylla skarð Antoines Griezmann hjá Atlético en Frakkinn er væntanlega á förum til Spánarmeistara Barcelona.
Félix sló í gegn með Benfica á síðasta tímabili og skoraði 20 mörk í öllum keppnum. Fimmtán þeirra komu í portúgölsku úrvalsdeildinni sem Benfica vann.
Hinn 19 ára Félix lék sinn fyrsta landsleik fyrir Portúgal í sigrinum á Sviss, 3-1, í undanúrslitum Þjóðadeildarinnar fyrr í þessum mánuði. Portúgal vann svo Holland, 1-0, í úrslitaleik Þjóðadeildarinnar.

