Kolbeinn Sigþórsson spilaði tuttugu mínútur fyrir AIK sem lagði Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni í fótbolta.
Kolbeinn, sem var valinn í íslenska landsliðshópinn á föstudag, byrjaði á bekknum hjá AIK en kom inn á sem varamaður á 70. mínútu. Þá var staðan orðin 2-0 fyrir AIK en Sebastian Larsson skoraði bæði mörkin með tveggja mínútna millibili í fyrri hálfleik.
Fleiri mörk komu ekki í leiknum sem lauk með 2-0 sigri AIK. Viðar Örn Kjartansson spilaði allan leikinn fyrir Hammarby.
Guðmundur Þórarinsson var í byrjunarliði Norrköping sem vann 2-0 útisigur á Eskilstuna.
AIK fór með sigrinum upp í þriðja sæti deildarinnar en bæði Hammarby og Norrköping eru um miðja deild.
