Mette stendur með pálmann í höndunum að loknum kosningum en Jafnaðarmenn hlutu 25,9% atkvæða og tryggðu sér 48 þingsæti.
„Kæru þið, kæru sósíaldemókratar en fyrst og fremst kæru Danir […] þið hafið beðið um nýjan meirihluta. Þið hafið beðið um nýja ríkisstjórn“.
Þetta sagði Mette í ávarpi sínu á kosningavöku flokksins þegar það lá ljóst fyrir að Jafnaðarmannaflokkurinn væri stærstur flokka. Útlit er fyrir að Mette verði yngsti forsætisráðherra Danmerkur frá upphafi.
„Ég er ótrúlega stolt af þessari kosningabaráttu sem er nú að baki. Við höfum talað fyrir okkar baráttumálum og ekki einblínt á pólitík annarra flokka,“ sagði Mette.

Þrátt fyrir að Mette hefði þakkað Lars fyrir framlag hans og þjónustu við almenning í ræðu sinni er það á hreinu að hann fær ekki ráðherrastól hjá henni.
„Ég vil fá hreina S-[ósíalista] ríkisstjórn þar sem við vinnum með öllum og leitumst eftir því að ná breiðri samstöðu.“
Lars sagði fyrr í kvöld að þrátt fyrir að hans flokkur, Venstre, hefði hlotið ágætis kosningu þá mætti lesa það af niðurstöðum kosninganna að ákveðin valdatilfærsla hefði orðið frá hægri til vinstri en bláa blokkinn endaði með 75 þingsæti en sú rauða 91 þingsæti.
Venstre, flokkur forsætisráðherra, bætti við sig fjórum prósentustigum í fylgi og níu þingsætum frá síðustu þingkosningum en það voru aðrir hægri flokkar sem guldu afhroð. Þannig tapaði Danski þjóðarflokkurinn 21 af 37 þingsætum sínum á milli kosninga.