Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir sem leikur fyrir hönd GR hefur leik á Shoprite LPGA Classic mótinu í golfi í dag. Mótið er hluti af LPGA-mótaröðinni, þeirri sterkustu í heiminum. Er þetta þriðja vikan í röð sem Ólafía Þórunn tekur þátt í móti á mótaröðinni á eftir Opna bandaríska meistaramótinu og Pure Silk Championship.
Ólafía Þórunn er með takmarkaðan keppnisrétt á LPGA þetta árið eftir að hafa verið með fullan keppnisrétt undanfarin tvö ár.
Shoprite Classic fer fram á Stockton Seaview golfvellinum í úthverfi New Jersey. Er þetta í annað skiptið sem Ólafía tekur þátt í þessu móti eftir að hafa misst af niðurskurðinum í fyrra skiptið.

